Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Tommi

Tommi

er 56 ára og menntaður ljósmyndari og starfaði lengi sem slíkur. Hann flutti líka inn ljósmyndavörur og hagnaðist ágætlega. Þegar stafræna tæknin kom til sögunnar og allir fóru að taka myndir þá átti hann ekki séns í þetta lengur –kannski var heldur ekki mikil innistæða fyrir – og undir það síðasta voru það bara passamyndir sem hann festi á filmu. Það var því sjálfhætt í ljósmyndabransanum og hann fékk vinnu hjá RÚV við yfirfærslu á myndefni og líkar vel. Finnst svoldið einsog hann sé enn í gamla faginu. Myndir eru myndir hvort sem þær eru á hreyfingu eða ekki.

Skilnaður þeirra hjóna var ekki honum að kenna – alla vega var það ekki hann sem pakkaði niður fyrir Imbu þegar hún yfirgaf hann og einbýlishúsið eftir meðferðina sem hann skikkaði hana í. Punkturinn yfir i-ið í áfengisneyslu Imbu var sólarferðin sem hún og Tommi fóru í þar sem Imba hvarf og sneri aftur heim á hótel fimm dögum seinna og hélt því fram að hún hefði skroppið frá í klukkutíma. Skilnaðurinn gerði það að verkum að Tommi varð dálítið utanveltu í stórfjölskyldunni og er ekki lengur boðið í árleg matarboð um jól og páska og heldur ekki í sumargrillið því fjölskyldan heldur að hann hafi klúðrað hjónabandinu. Samband Tomma við dótturina Ingu – tilvonandi brúði – er nokkuð gott og hann er ennþá hrifinn af Imbu.

Tommi er glaður og hress þegar hann vill það við hafa. Ákveðinn náungi þegar þess þarf og mikill veiðimaður. Því miður hefur sonurinn Atli engan áhuga á að standa uppí mitti útí einhverri á svo hann hefur reynt að koma veiðiáhuga inn hjá dóttur sinni í staðinn. Inga hefur farið með eiginlega meira tilað gleðja pabba sinn en að hún hafi gaman af þessari vosbúð og bleytu að ónefndri fiskifýlunni.

Tommi vill endalaust hafa vit fyrir öðrum og hefur þann galla að vera sífellt að hafa áhyggjur af öðru fólki og því sem það gerir, stóru eða smáu, helst þó smáu og getur orðið býsna þreytandi stundum með sitt endalausa: passaðu að það fari ekki í sætið, ekki vera of nálægt, við megum ekki vera hér, ekki svona hátt, það fór aðeins niður, er þetta ekki aðeins of mikið, o.s.frv. Sumir segja að Tommi sé lúser sem er kannski rétt að einhverju leyti en sjálfum finnst honum hann frekar vera músin sem læðist. Tommi á mikið flugusafn og uppáhaldsflugurnar hans eru Willie Gun og Sunrise Shadow.


Hinir:
Svanur
Atli
Inga
Imba