Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Inga

Inga

er fædd 2. september 1978. Hún verður þrítug á árinu og er því himinlifandi yfirað ná einu af markmiðum sínum í lífinu sem var að giftast fyrir þrítugt. Inga var og er námsmanneskja mikil. Hún var hæst á samræmdu prófunum í grunnskóla og dúxaði í Menntaskólanum á Egilstöðum. Eftir útskrift fór hún til Bandaríkjanna, St. Paul Minnesota, í sálfræðinám en henni líkaði ekki dvölin þar og kom heim eftir einn vetur. Það sumar vann hún á Hótel Öldu á Seyðisfirði sem gengilbeina og hjálparkokkur. Eftir sumarið var hún komin með kokkabakteríu og fór því á matreiðslunámskeið á Ítalíu, í Noregi og Danmörku en kom heim á milli námskeiða og vann myrkranna á milli á Hótel Öldu tilað safna sér pening fyrir næstu ferð.

Stóri draumurinn var og er að opna sinn eigin veitingastað. Síðastliðin fimm ár hefur hún verið í hálfsdagsstörfum aðallega í móttöku og að svara í síma fyrst á endurskoðendaskrifstofu, því næst á verkfræðistofu en síðastliðin þrjú ár hefur hún verið að vinna í Suzuki-tónlistarskólanum. Hún valdi þessi störf því með þeim gat hún stundað nám með vinnu en tilað halda tengslum við veitingareksturinn tók hún vaktir á Kaffi París og þar hitti hún Barða.

Í rauninni tók hún ekkert eftir honum fyrren hún hellti yfir hann kaffilattinu sem hún var að færa Grjóna, besta vini Barða. Hún hafði ekki augun af Grjóna allt kvöldið og stjanaði í kringum hann einsog einkaþjónn. Grjóni hins vegar sýndi henni engan áhuga og þegar staðnum var lokað rauk Grjóni á fætur og kippti með sér stelpunni á næsta borði og Inga stóð eftir einsog illa gerður hlutur og virti fyrir sér eftirlegukindurnar tvær, Barða og Síða. Hún valdi Barða.

Inga hefur tekið hina ýmsu viðskiptakúrsa tilað ná því markmiði sínu að stofna eigið fyrirtæki þ.e. veitingastaðinn. Hún byrjaði m.a. á Auður í krafti kvenna, en átti erfitt með að vinna með öðrum konum og flosnaði því uppúr því. En nú hefur hún nýlokið námi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Hún hefur sagt upp starfi sínu í Suzuki-tónlistarskólanum og ætlar að láta drauminn rætast og er að leita að húsnæði fyrir veitingastaðinn sinn.

Inga er full sjálfstrausts og eftir henni er tekið hvar sem hún kemur. Hún er alltaf glöð og brosmild, á auðvelt með að kynnast fólki, gefur mikið af sér og virðist vera með líf sitt algerlega á hreinu. Hún er með fullkomnunaráráttu og vill gera hlutina 100% eða sleppa þeim. Hún velur vandlega fólkið sem hún vill hafa í kringum sig og hleypir fáum að sínum innsta kjarna. En hún er alltaf vinsamleg og áhugasöm um aðra hversu lítið sem hún þekkir þá eða langar að kynnast þeim. Inga kynntist Láru vinkonu sinni í gaggó og þær náðu ótrúlega vel saman. Það kom Ingu í opna skjöldu því Lára var fyrsta alvöru vinkona hennar, fyrsta jafnaldra hennar sem hún tengdi við og fannst skemmtilegt að vera með.

Sem barn eyddi Inga frítíma sínum mest með bróður sínum og vinum hans. Þar fékk hún mikla athygli og var einsog gefur að skilja einstök í hópnum, þar sem hún var eina stelpan. Þegar kom að menntó ákvað Inga að fara í Menntaskólann á Egilstöðum. Það var eitthvað svo kúl að fara útá land í menntó. Inga var kosin ungfrú ME á fyrsta árinu í menntó og tókst að komast í fegurðarsamkeppni Austurlands þar sem hún var kosin Ungfrú Austurland 18 ára gömul. Hún komst hins vegar ekki á verðlaunapall í Ungfrú Ísland og hefur verið alfarið á móti fegurðarsamkeppnum síðan.

Inga vill fá viðurkenningu frá hinu kyninu með því að heyra að hún sé betri, fallegri og klárari en aðrar konur og hefur oft endað upp rúmi tilað sanna að þar sé hún færari en flestar. Hún er samt alls ekki þekkt fyrir lauslæti þar sem þeir karlmenn sem hún sængar með eru yfirleitt eldri en hún, oftar en ekki giftir og í nokkrum tilfellum yfirmenn hennar. Inga minnist ekki á þessi hliðarspor sín við nokkurn mann – heldur ekki við Láru bestu vinkonu sína. Aðeins einu sinni hefur hún lent í vandræðum vegna þessarar áráttu sinnar en það var úti í Bandaríkjunum. Hún hélt við sálfræðiprófessorinn sinn en þegar hún fékk ekki A+ fyrir lokaverkefnið sitt í sálfræðinni, missti hún stjórn á skapi sínu og lét ýmislegt óviðeigandi flakka. Daginn eftir hélt hún heim til Íslands og lýsti því yfir að sálfræði ætti ekki við sig.

Inga er voða lítið að pæla í þessu hegðunarmunstri sínu heldur einbeitir sér að því að hún sé sjálfstæð kona sem veit hvað hún vill og sækir sér það sem hún girnist. Inga reykir ekki og er alger fanatíker á reykingar. Uppáhaldssjónvarpsþættir hennar eru Nigella, Jamie Oliver, Rachel Ray, dýralífsþættir og American Idol. Uppáhaldsréttur Ingu er sítrónubaka –Crostata di Limone.


Hinir:
Svanur
Atli
Tommi
Imba