Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Barði

Barði

er 31 árs og stúdent frá Versló þar sem hann kynntist Grjóna og Síða. Honum fannst og finnst enn Grjóni töff og vildi gjarnan vera einsog hann og myndi alveg sætta sig við þó hann næði ekki nema 37% af karakter Grjóna. Grjóni og Síði voru heimagangar hjá Barða og héngu öllum stundum niðrí kjallaraherberginu hans með græjurnar í botni og hlustuðu á Kolrössu krókríðandi, Prodigy og Ham. Blur og Oasis.

Barði er tiltölulega framkvæmdarlaus og finnst gott að aðrir taki ákvarðanir því þá þarf hann bara að ákveða hvort hann vilji fljóta með eða ekki. Eiginlega má segja að hann sé ákvarðanafælinn, allavega þegar kemur að því að taka ákvarðanir fyrir hann sjálfan en hann getur verið góður í að hjálpa öðrum að taka ákvarðanir. Í eina skiptið sem hann tók sjálfstæða ákvörðun var þegar hann neitaði að vinna í heildsölunni hjá pabba sínum eftir stúdentsprófið í Versló. Hann vildi gera einsog hinir. Fara í banka og verðbréf og þar hefur hann haldið sig og er góður í því. Hann er á uppleið. Barði nagar neglur sem fer í taugarnar á öllum í kringum hann nema Auði litlu systur hans.

Barði hafði á stundum áhyggjur af Auði því honum fannst hún ekki hegða sér einsog aðrar litlar systur. Ekki að hann hefði mikla reynslu af hegðunarmynstri lítilla systra en samt. Þegar hann var sextán ára spurði hann mömmu sína í mesta sakleysi hvort ekki væri ráðlegt að senda Auði í greiningu hjá sálfræðingi. Mamma hans hafði horft á hann með nístandi augnaráði og hreytt útúr sér: Sumir eru bara öðruvísi en aðrir og haldið áfram að sortera óhreina tauið. Eftir það minntist Barði aldrei á undarlegt háttarlag Auðar við mömmu sína heldur ákvað með sjálfum að fylgjast með systur sinni bara svona til öryggis.

Það er stirt sambandið á milli Barða og pabba hans en hann hefur gott samband við mömmu sína. Er ekki alveg að ná því af hverju þau búa saman ennþá en hann segir ekkert því honum finnst hann ekki geta skipt sér af því hvernig foreldrar hans lifa lífinu. Honum finnst að aðrir ættu að gera það sama og ekki vera að skipta sér af því hvernig hann lifir lífinu.

Barði hefur áhyggjur af því hvernig fólk í kringum hann hefur það. Líði einhverjum illa vill hann allt gera tilað hjálpa viðkomandi. Inga notar þetta svoldið og þá oft tilað fá vilja sínum framgengt, Barða finnst betra að segja jájájá og halda friðinn. Hamingja hans er friður og ró og lygn sjór. Barði er ekki skaplaus. Hann hefur bara aldrei þurft að sýna neitt skap en þegar hann svo þarf á því að halda, þá verður hann einsog eldfjall sem vaknar og ryður úr sér þúsund ára eldi og eimyrju.

Barði kynntist Ingu á kaffi París þar sem hún vann á barnum. Eiginlega tók hann ekki eftir henni fyrren hún helti yfir hann kaffilatte og fannst hún skemmtilega klaufaleg. Hann ætlaði að láta hana borga fyrir hreinsun á jakkafötunum sínum en hætti við það þegar hún kom að borðinu þeirra eftir lokun og stóð bara við borðið einsog hún hefði týnt einhverju. Barði og Inga hafa verið í sambúð í 3 ár. Barði er alger andstæða Ingu sem er rösk og ákveðin bæði heima við og útá við og honum finnst það eiginlega ágætt. Hann þarf þá ekki að taka ákvarðanir á meðan. Hann þekkir orðið vel hegðunarmynstur tilvonandi eiginkonu sinnar og þegar hann finnur fyrir að skipulagshringiða er að skella á heimilinu einsog djúp lægð á veturna, þá þarf hann alloft að fara á fund. Þannig hefur hann komist hjá því að velja lit á stofuna, flísar á baðið, brjóta niður innbyggða fataskápinn í svefnherberginu, velja nýtt sófaborð, taka til í geymslunni og undirbúa þrítugsafmælið sitt.

Barði, Grjóni og Síði spila saman fótbolta tvisvar í viku og eftir sturtuna er oftast haldið á barinn. Þeir horfa líka á enska boltann heima hjá Grjóna því Inga þolir ekki fótbolta. Einu skiptin sem Barði og Inga hafa rifist var þegar Barði vildi frekar horfa á fótbolta en fara með henni í barnaafmæli hjá fjarskyldum ættingja mömmu hennar. Inga nær því ekki hvernig maður sem heldur með Liverpool þarf að horfa á leik Manchester United og Arsenal til dæmis. Eða Bolton – Chelsea.

Þegar Inga ákvað fyrir tæpu ári að best væri fyrir þau að giftast bara lét Barði sársaukalaust undirbúninginn í hendurnar á henni. Það eina sem hann átti að sjá um var að bjóða nánustu vinum og ættingjum í sjálfa kirkjuathöfnina, panta bíla undir kirkjugesti, ákveða hvar veislan í bænum yrði haldin og sjá sjálfur um sitt eigið steggjapartý.


Hinir:
Stefán
Lúðvík
Brynhildur
Auður