Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Auður

Auður

er sjö árum yngri en Barði, 24 ára en lítur út fyrir að vera 17. Hún er alltaf litla barnið, þrátt fyrir háan aldur að hennar mati og það liggur við að mamma hennar mati hana. Lúðvík tók ástfóstri við Auði um leið og hann hélt á henni á fæðingarheimilinu við Eiríksgötu. Strauk rauðan dúninn á kollinum og söng fyrir hana Við gefumst aldrei upp þó móti blási í bland við Bíbí og blaka og Móðir mín í kví kví. Skírði hana samstundis litlu pabbastelpuna og hefur kallað hana það allar götur síðan.

Auður var fullkomlega eðlilegt barn til sjö ára aldurs. Gáskafull, glaðvær og talaði í síbylju frá því hún vaknaði á morgnana þar til hún sofnaði á kvöldin. Braut allt sem hönd á festi, hellti öllu niður og gat aldrei haldið mat á gaffli frá diski uppað munni öðruvísi en að missa helminginn útaf gafflinum. Á sjö ára afmælisdeginum hennar gaf Barði henni gaffal með hekluðu öryggisneti sem hann hafði gert í handavinnu. Í staðinn fyrir þakklæti og hrós fékk hann skammir frá föður sínum og án þess að hugsa sig um tvisvar lét hann vanþakklætið og skammirnar bitna á systur sinni sem hefndi sín með því að sturta niður gullfiskum bróður síns í klóið.

Upp frá þessum degi var einsog Auður hefði dottið úr sambandi og varð ofsalega off í öllu. Hæg og sein, feimin og skrítin. Mikið inní sér, talaði lítið en hugsaði þeim mun meira. Átti í erfiðleikum með hendurnar og var á svipinn einsog hún væri með stöðuga ælupest. Sat tímunum saman í fanginu á pabba sínum og horfði með honum á allt í sjónvarpinu. Þegar efni sem var ekki við hæfi barna var sýnt hélt pabbi hennar fyrir augun á henni og hvíslaði að henni sögum úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar ásamt velvöldum sögum frá Sturlungaöld.

Þegar Auður komst á táningsaldurinn flutti hún sig úr fangi pabba síns, lagðist í rúmið með Rauðu ástarsögurnar og breyttist í ástsjúkan ungling. Ýmist var að líða yfir hana í fangi skurðlæknisins á Sírus Fláver sjúkrahúsinu í Mansjester eða þá hún var að forðast að líta í brún og ástþrungin augu sonar óðalsbóndans á Meddoff-landareigninni í Suffolk. Þarna lá hún öll táningsárin nema þegar hún þurfti nauðsynlega að mæta í skólann tilað hitta vinkonu sína sem hún hafði kynnst í sjöunda bekk og sem Barði hélt fram að væri borderlæn rítarded. Eða þegar hún húkti frammi á gangi í kjallaranum fyrir utan herbergisdyrnar hjá Barða og fylgdist með því sem fram fór. Að vísu heyrði hún ekkert af því sem sagt var gegnum hávaðann af músíkinni og henni fannst það svosem í lagi. Aftur á móti fannst henni lélegur tónlistarsmekkur bróður síns ekki alveg í lagi. Nokkrum sinnum reyndi hún að koma fyrir hann tónlistarvitinu án árangurs og breytti engu þótt hún hækkaði dauða heilafruma vegna skaðlegrar hlustunar á Oasis úr fimm hundruð þúsundum uppí tvær og hálfa milljón. Barði sagði henni að hafa ekki áhyggjur, hann væri með karlmannsheila sem væri sérhannaður fyrir svona álag svo hún skyldi bara drífa sig inní sitt eigið herbergi og hlust á Hatt og Fatt eða Rut Reginalds. Auður lokaði aftur að sér og setti á Skunk Anansie.

Næst þegar Auður opnaði hurðina á herberginu sínu birtist hún í stuttu silfurlituðu pilsi úr plasti, nælonsokkabuxum, tíu sentimetra semi-háhæluðum fjólubláum skóm með böndum yfir ristina, alltof stuttum neongrænum magabol og svartri þunnri kögurpeysu úr hnökróttu gerviefni sem utanyfirflík. Blár augnskugginn náði frá kolsvörtum augnhárunum uppá dökkrauðar augabrúnirnar. Mamma hennar og pabbi snéru sér frá fréttunum í sjónvarpinu og göptu af undrun yfir útgangi dóttur sinnar. Þau misstu alfarið af seinni hluta fréttatímans plús veðurfregnunum það kvöldið. Barði hafði skroppið uppúr kjallarahýði sínu og rekist á systur sína bögglast á hælaskónum niður tröppurnar og lýsti því yfir við foreldrana sína – íklæddur svörtum hauskúpubol og æfingabuxum frá Val – að það færi ekkert á milli mála að engin snúra í systur hans væri rétt tengd. Klukkan sex um morguninn staulaðist Auður heim á brotnum hælaskónum og dró á eftir sér slitur af utanyfirflík sem hafði verið í upphafi fréttatímans fyrr um kvöldið þunn kögurpeysa úr hnökróttu gerviefni. Þetta varð fyrsta og síðasta djammferð Auðar um bari borgarinar.

Næsta dag fór Barði með litlu systur og keypti á hana ný föt í Sautján. Þegar heim kom hélt hann yfir henni langan fyrirlestur í eldhúsinu um hvað má og á og hvað ekki á og má. Á meðan á fyrirlestrinum stóð sat Auður hokin með höku niðurá bringu og starði á Barða tómum þreytulegum augum. Þegar Barði þagnaði stóð Auður upp, þrammaði þungum skrefum að herberginu sínu og skellti hurðinni á eftir sér.

Hún málaði yfir húðlitað herbergið með plast glóv in ðe dark stjörnunum í loftinu, flutti alla bangsana – nema einn, úr efstu hillunni í þá neðstu. Pakkaði niður postulínsstyttunum og henti kóktappanum sem Síði hafði gefið henni og hún geymt í hjartalaga poka undir koddanum í þrjú ár. Hélt skartgripaskríninu ásamt pennastatífinu, körfunni með sápunum úr boddísjopp og skrifborðslampanum en henti 300 illa teiknuðum myndum af ástföngnu hjartapari – líka Síði, beint útí ruslatunnu. Dagbókin um Síða fór sömu leið.

Með dyggri aðstoð Barða og pabba síns tókst henni að komast uppúr meðaleinkun 5 í 7 á stúdentsprófi og sótti um flugfreyjuna. Ári seinna sótti hún aftur um og enn aftur ári seinna. Á meðan hún bíður eftir því að komast í flugfreyjuna vinnur hún í heildsölunni hjá pabba sínum.


Hinir:
Stefán
Lúðvík
Brynhildur
Barði