Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Brynhildur

Brynhildur

Brynhildur kynntist Lúðvík í Glaumbæ. Hún kom auga á hann uppvið barinn og fannst hann eitthvað svo einmana og umkomulaus innan um drukkið liðið að hún tók hann að sér. Bibba ætlaði sér stóra hluti í lífinu. Um það leyti sem hún kynntist Lúðvík var hún á leiðinni til Englands sem au-per. Var að vísu ekki búin að finna fjölskylduna sem hún ætlaði að setjast að hjá en hún var viss um að það yrði ekkert mál. Hver myndi ekki vilja glaðlynda, blíða, barngóða, íslenska stúlku – snyrtipinna þar að auki, tilað annast börnin sín? Bibba var meira að segja búin að fjárfesta í Bangsímon – Vinní ðe pú, á ensku tilað hafa með sér svo hún gæti lesið fyrir börnin – stelpu og strák, á kvöldin þegar þau væru komin í rúmið.

Ferðalagið til Englands dróst og í staðinn ákváðu Bibba og Lúðvík að fara í viku tjaldferðalag um landið og fengu lánaða fólksvagenbjöllu pabba Bibbu. Þau keyrðu í sól, blíðu og rykmekki alla leið í Ásbyrgi og börðu tjaldið niður í grjótharðan jarðveginn. Hituðu sér niðursoðinn saxbauta frá KEA á prímusnum, renndu saman svefnpokunum og skriðu alsæl ofan í pokann. Um nóttina fór að rigna. Þegar þau vöknuðu voru þau á floti og þar að auki hafði Bibba sofið með grjót uppí bakið alla nóttina. Þá fannst henni þetta orðið gott og þau héldu aftur til Reykjavíkur. Tveimur mánuðum seinna komst Bibba að því að hún væri ófrísk að Barða.

Það kom ekki til greina annað en að þau giftu sig. Bibba kvaddi Englands-drauminn og útbjó nýjan. Þar var Lúðvík eigandi sælgætisverksmiðjunnar sem hafði stækkað 83% eftir að hann tók við henni og þau lifðu í vellystingum og praktugheitum. Ekki að Bibba hefði hugmynd um vellystingar og pragtugheit alin upp á fátæku heimili í Smáíbúðahverfinu en hún hafði sínar hugmyndir úr danska blaðinu Familí Sjornal og þýska poppblaðinu Bravo sem hún fletti í Máli og Menningu þegar hún var í hádegispásu í skrifstofuvinnunni. Afar óspennandi skrifstofuvinnu.

Óspennandi varð fylgifiskur Bibbu. Sælgætisverksmiðjan varð aldrei meira en einn moli í stórum brjóstsykurpoka og á endanum hætti Lúðvík í sælgætisverk-smiðjunni og fór í innflutning á súkkulaðikexi og það var harla lítið spennandi fannst Bibbu og heimilið þeirra – þrátt fyrir nokkuð gott útlit að hennar mati, náði aldrei inná síður Húss og Hýbýla.

Með árunum varð hjónabandið að gömlum vana. Einmanaleikinn og umkomuleysið hjá Lúðvík sem Bibbu fannst svo sjarmerandi í denn fór að fara í taugarnar á henni. Ef hægt var að bifa Lúðvík út fyrir dyr heimilisins á mannamót, þá stóð hann yfirleitt útí horni og talaði ekki við nokkurn mann nema ef einhver abbaðist uppá hann og neyddi hann útí samræður sem lauk yfirleitt á því að viðkomandi flúði eftir stuttar samræður um veðurfarið.

Barði óx úr grasi, ljúfur, viðmótsþýður og stutt í brosið. Vinir og kunningjar komu og fóru – aðallega fóru, og Bibba sat mörg kvöldin ein í plusssófanum og horfði á svarthvítt sjónvarpið. Sjónvarpið fór úr svarthvítu í lit en bláminn í stofunni var áfram hinn sami. Lúðvík sat alla daga, nokkur kvöld og einstaka nætur niðurí heildsölu og taldi kexpakka uppúr kössum. Barði trítlaði með pabba sínum niðurí heildsölu þriðjudaga og fimmtudaga frá tíu til fjögur og taldi með honum kexpakka þar til einn fimmtudagsmorgun að hann skreið undir eldhúsborðið, hengdi sig fyrst í borðfótinn og síðan í fót móður sinnar og neitaði að fara í vinnuna með pabba sínum.

Marglitt ljós í lífsbláma Bibbu birtist einn daginn á tröppum einbýlishússins í Bakkagerði í líki Stefáns H. Vilhjálmssonar, sonur föðurbróður Lúðvíks sem hafði flúið Austfirðina vegna þokunnar að eigin sögn. Bibba bauð honum að búa í gestaherberginu og flutti kexlagerinn útí bílskúr. Bibba og Stefán náðu vel saman og oft óskaði Bibba þess að hún hefði frekar hitt á Stefán á barnum í Glaumbæ heldur en blessaðan núverandi eiginmann sinn. Í ljós kom að það var ekki þokan sem hrakti Stefán frá Austfjörðum heldur átti hann í vandræðum með kynhneigð sína og drekkti sálarangist sinni í víni og konum. Hann leitaði mikið til Bibbu án þess þó að segja henni frá þjakandi leyndarmáli sínu og Bibba – sem aldrei mátti sjá neitt aumt – huggaði Stefán. Faðmaði hann, strauk honum um hárið og skutlaðist útí sjoppu eftir kók svo hann gæti unnið á þynnkuþorstanum.

Einn daginn hvarf Stefán. Bibba sat eftir í gestaherberginu og strauk koddann. Viku seinna stóð hún upp, þvoði rúmfötin, henti koddanum og fékk sér vinnu á ferðaskrifstofu. Ári seinna bankaði Stefán uppá, glaðari og hamingjusamari en nokkru sinni. Hann fékk gestaherbergið aftur og Bibba keypti nýjan kodda. Gleði og hamingja Stefáns var smitandi og Bibba fór brosandi í vinnuna á morgnana og kom brosandi heim. Brosti yfir fréttunum í sjónvarpinu sem sögðu frá hungri og hörmungum og veðurfréttunum sem spáðu suðsuðvestan roki og rigningu. Lúðvík var ekkert um þetta bros gefið enda alvörugefinn heildsali á byrjunarreit með víxla og skuldabréf sem ekki var hægt að borga með brosi og þaðan af síður hamingju eða gleði. Á meðan hlátrasköllin gengu yfir í Bakkagerðinu sat Lúðvík niður á heildsölu og reiknaði saman debit og kredit á Ólívettí-reiknivél.

Kvöld eitt tilkynnti Stefán Bibbu að hann væri á förum til Englands næsta dag. Bibba reisti sig svo harkalega uppúr plusssófanum að poppkornsskálinn flaug útá gólf og poppkornið dansaði um gólfteppið einsog snjóflygsur í hávaðaroki. Hávaðarok var líka það sem geisaði í huga Bibbu þegar Stefán hikstaði því uppúr sér að hann ætti kærasta í Englandi. Innst inni hafði Bibba vitað að Stefán væri samkynhneigður en hafði vonast til að þegar hann hætti þessum tvístíganda milli kynja og tæki ákvörðun um í hvorn fótinn hann ætlaði að stíga þá yrði karlmannsfóturinn fyrir valinu.

Sefán eyddi síðustu nótt sinni á Íslandi á Hótel Loftleiðum. Bibba sótthreinsaði gestaherbergið, sótti kexlagerinn útí bílskúr og staflaði kexkössunum í snyrtilegar stæður. Lúðvík lagði Ólívettí-reiknivélinni og flutti sig í sæti Stefáns í plusssófanum. Bláminn lagðist aftur yfir heimilislífið, fjarstýringin hvíldi friðsæl á milli þeirra og Auður kom í heiminn.

Lúðvík var himinlifandi. Pabbastelpan loksins komin og auðurinn sem aldrei barst inní heildsöluna var settur á stúlkubarnið og hún skírð Auður. Bibba lét sér fátt um finnast og fannst alveg nóg um dálæti Lúðvíks á ósköp venjulegu íslensku stúlkubarni og þegar Lúðvík benti Bibbu stoltur á að Auður væri öll í föðurættina greip Bibba fjarstýringuna og hækkaði í sjónvarpinu.


Hinir:
Stefán
Lúðvík
Auður
Barði