Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Lúðvík

Lúðvík

fæddist á Akureyri 21. júlí 1945. Foreldrar hans voru strangtrúaðir og ólst hann því upp í guðsótta og góðum siðum ásamt systkinum sínum, Guðrúnu og Vilhjálmi. Lúðvík náði aldrei neinu sambandi við föður sinn en þeim mun betra var samband þeirra mæðgna og hún var besti vinur hans. Mamma hans gat allt og vissi allt, kjölfesta heimilisins og Lúðvík fylgdi henni eftir einsog skuggi. Lét sig engu skipta þó Villi villingur bróðir hans kallaði hann mömmustrák heldur sat sem fastast á þrífætta kollinum í eldhúsinu og horfði á mömmu sína flaka þorsk og ýsu. Sjóða kartöflur og bræða tólg. Baka jólakökur og kleinur. Einu sinni í viku stóð hann uppaf eldhúskollinum og færði sig í dyrnar á meðan mamma hans skúraði gólfið. Lúðvík var fimmtan ára þegar mamma hans dó og heimurinn hrundi.

Vilhjálmur flutti daginn eftir austur á Firði og settist að hjá föðurbróður sínum. Guðrún tók við flökuninni, tólgbræðslunni og bakstrinum. Lúðvík kláraði gagnfræðinginn einsog hann hafði lofað mömmu sinni og komst á samning hjá pípulagningarmeistara og fór í Iðnskólann. Þegar hann lauk náminu í pípulögnunum uppgötvaði hann að pípulagnir áttu engan veginn við hann svo hann slökkti á snittvélinni, klæddi sig úr bláa vinnusamfestingnum og fór á sjóinn. Syngjandi sæll og glaður til síldveiða nú ég held ásamt Sjómannslíf, sjómannslíf draumur hins djarfa manns reyndist enginn draumur heldur sjóblautt puð og púl og eftir nokkra túra, nokkrar landlegur og enn fleiri túra tók Lúðvík pokann sinn og hélt í land.

Partíljón var það síðasta sem fólki datt í hug þegar Lúðvík átti í hlut. Hægfara og rólegur. Talaði lítið um ekki neitt og oftast mátti sjá hann standa þétt uppvið málverkið af Vaðlaheiðinni á Hótel KEA. Taktfast og örugglega einsog öldur sem rísa og hníga lyfti hann sjéníverinu blönduðu til hálfs með kóki uppað vörum sér og skolaði niður ímynduðum samræðum við hverja dísina á fætur annarri. Ár eftir ár kleif hann Brekkuna reikull í spori þar til hann ákvað að skipta um umhverfi og stíl og hélt til Reykjavíkur.

Umhverfið breyttist en stíllinn ekki. Í stað málverksins á KEA kom barinn í Glaumbæ og þar hitti hann Brynhildi. Brosandi fór hann í vinnuna í sælgætis-verksmiðjunni og brosandi kom hann heim. Brosandi horfði hann á mæ neim is Bond og brosandi bauð hann Brynhildi á Askinn. Brosandi fór hann með henni í útilegu í Ásbyrgi og brosandi leiddi hann hana inn kirkjugólfið í Langholtskirkju. Brosandi horfði hann á dökkan koll drengsins á Fæðingardeild Landspítalans og leit brosandi á Brynhildi sem hafði sofnað.

Það kom að því að brosið stirðnaði og svo datt það af. Lúðvík hætti í sælgætisverksmiðjunni og stofnaði heildsölu. Vann myrkrana á milli og hagnast þokkalega. Byggði einbýlishús með þrautseigju og þolinmæði. Hélt jólakorta-sambandi við Villa bróður sinn og símasambandi við Guðrúnu systur sína og kom pabba sínum fyrir á elliheimili fyrir norðan. Langar samræður þeirra Brynhildar um allt og ekkert styttust ár frá ári og eftir sex ára sambúð voru þau komin niður í í einsatkvæðisorða athugasemdir sem aðallega snérust um svarthvíta sjónvarpsdagsskrána. Athugasemdirnar þeirra hjóna urðu ekkert litríkari þótt sjónvarpið skipti úr svarthvítu yfir í lit.

Þreytulegur blámi hjónabandsins hvarf þegar Stefán birtist skyndilega á tröppum einbýlishússins. Lúðvík lét glaður eftir sæti sitt í plusssófanum við hlið Brynhildar og flutti sig í svo gott sem ónotaðan staka stólinn. Brosið tók sig upp aftur en samræðurnar héldust í sófanum og smátt og smátt varð Lúðvík eins stakur og stóllinn í fjörugum umræðum Brynhildar og Stefáns en Lúðvík stóð á sama. Hann hafði aldrei verið málgefinn svo fyrirkomulagið hentaði honum ágætlega. Hann gat líka látið sig hverfa niður á heildsölu án þess að hafa samviskubit yfir því að Brynhildur sæti alein í fjögramanna plusssófanum.

Svo kom að því að Stefán hvarf úr lífi þeirra hjóna en í staðinn kom stúlkan Auður. Lúðvík var himinlifandi og allt hans líf snerist um stúlkubarnið. Frá fjögra mánaða aldri barði hann á hverjum degi í góm stúlkunnar þar til hann fann fyrir fyrstu tönninni. Hann varð líka sá sem hún beit fyrst. Hann skreið með Auði um gólfið og horfði stoltur á hana þegar hún steig sín fyrstu skref. Það má eiginlega segja að Lúðvík hafi dregið lífsandann í gegnum dóttur sína og kært sig kollóttan þótt hjónabandið drabbaðist niður í gamlan vana.

Samband Lúðvíks og Barða var álíka hlýlegt og vetrarnepjan á Holtavörðuheiði og jafn stirt og kolryðguð dráttarbraut. Barði sýndi heildsölunni engan áhuga og vildi frekar vera atvinnulaus og blankur en pakka upp og niður súkkulaðikexi í skólafríum. Lúðvík hafði vonast tilað Barði tæki við rekstri heildsölunnar þegar hann útskrifaðist úr Versló en drengurinn hafði akkúrat engan áhuga á heildsölubransanum svo Lúðvík beið þolinmóður eftir að Auður kæmist til heildsöluvits og ára.


Hinir:
Stefán
Brynhildur
Auður
Barði