Deprecated: Function set_magic_quotes_runtime() is deprecated in /home/sveitabrudkaup/sveitabrudkaup.is/textpattern/lib/txplib_db.php on line 14
Sveitabrúðkaup: Stefán

Stefán

Stefán ólst upp í litlu þorpi á Austfjörðum. Var aldrei gefinn fyrir fótbolta né önnur spörk og hélt sig meira inni við og inná við. Hafði ógeð á fiski og slori og raðaði því í hillur í kaupfélaginu á meðan bræður hans veiddu og hausuðu ýsu, þorsk, steinbít og karfa og systur hans flökuðu og pökkuðu ýsu, þorski, steinbít og karfa. Pabba Stefáns fannst drengurinn afbrigðilegur en mamma hans hélt því fram að það þyrftu ekki allir að vera í klofstígvélum og sjóstakk tilað teljast karlmenn.

Á meðan pabbi Stefáns hnussaði ofaní Tímann og mamma hans las Heima er best, bræðurnir drógu net, troll og línur og systur hans flökuðu og pökkuðu í akkorði í frystihúsinu sat Stefán í örvæntingu inní herbergi og velti því fyrir sér af hverju honum fannst strákar fallegri en stelpur. Af hverju hann gat ekki verið skotinn í systur besta vinar síns úr því hún var skotin í honum. Af hverju hann sat alltaf einsog límdur uppvið hliðina á Svavari, besta vini sínum, og leið best þegar hann hélt utanum Svavar. Tilað geta sem oftast haldið utanum hann án þess að það teldist óvanalegt eða vekti grunsemdir hjá Svavari þá sagði eða gerði Stefán eitthvað á hlut hans sem réttlætti að hann bæðist fyrirgefningar.

Þetta eitthvað gat verið allt frá því að segja við Svavar: systir þín er ljót, þú ert með útstæð eyru einsog fíll, mamma þín kann ekki einu sinni að sjóða kartöflur og pabbi þinn er aumingi með tréfót. Ekkert af þessu var satt og þess vegna þurfti að biðjast fyrirgefningar, það gerði Stefán með vinstri handlegginn yfir axlir Svavars og með þeirri hægri hélt hann um hægri hönd Svavars. Fyrirgefning með faðmlagi var þegar Stefán hafði gert eitthvað meiri háttar á hlut Svavars. Einsog þegar hann sleppti páfagauknum ekki bara útúr búrinu heldur útúr húsinu, skar niður róluna sem Svavar hafði búið til handa systur sinni, sleit hausinn af hí-mann kallinum hans og eyðilagði pakkmann tölvuna hans. Þá dugði ekkert minna en faðmlag með fyrirgefningarbeiðninni.

Eftir fimm ára móðgunar- og eyðileggingarferil fékk Svavar nóg og á meðan Ómar Ragnarsson söng Sveitaball, það jafnast ekkert á við Sveitaball í félagsheimilinu við mikinn fögnuð þorpsbúa gaf Svavar Stefáni svo hressilega á hann að kjálkinn lét undan. Þá hafði Stefán lýst því yfir að kærasta Svavars væri einsog þriggja ára heysáta sem hafði gleymst útá engi og áður en Stefán gæti beðist fyrirgefningar lá hann í gólfinu í félagsheimilinu og horfði á eftir æskuástinni sinni slaga út í faðmlögum við heysátuna.

Gagnkynhneigður hafði hann klukkan 22:05 stikað inn gólfið í félagsheimilinu í rosastuði. Kjálkabrotinn á gólfinu tveimur tímum síðar neyddist hann tilað horfast í augu við sjálfan sig og klukkan 00:17 var hann borinn út samkynhneigður.

Stuttu seinna flúði Stefán Austfirði og bankaði uppá hjá Lúðvík frænda sínum í Reykjavík. Hann reyndi hvað hann gat að falla inní normið, var soldið í ruglinu, ekki alveg að sætta sig við samkynhneigðina og dúndraði gellum svona til að sanna sig með þeim. Bibba, Bibba, Bibba einsog Stefán kallaði Brynhildi, varð stoð hans og stytta, smitandi hlátur hennar dró fram gleði hans og hlátur og þegar hann var dávn and át flúði hann í fangið á Bibbu og grét í axlarpúðann á peysunni hennar. Ef hann hefði verið gefinn fyrir kvenkynið hefði hann kolfallið fyrir Bibbu, Bibbu, Bibbu þrátt fyrir aldursmuninn. Honum fannst hún kúl, kalm og kollekted. Afar sexí og skildi ekki hvað hún var að hanga með þumbaranum Lúðvíki. Hann óskaði þess oft og innilega að Bibba, Bibba, Bibba væri karlkyns og stundum þegar hann lokaði augunum tókst honum að gleyma því að hún væri kvenkyns. Alveg þangað til vangi hans rann til í tárunum, niður bringuna og staðnæmdist á brjóstunum.

Í sófanum í Bakkagerði uppgötvaði Stefán eitt og annað um sjálfan sig. Til dæmis að hann var í raun lovsikk og ógeðslega nídí. Næstum einsog fjórtán ára smástelpa. Hann átti það til að gleyma sér yfir brúðkaupsmyndunum í Mogganum, stara á brúðina og hugsa: wæ sí but nott mí. Sístematískt skannaði hann barina í leit að karlmannsbibbu og þegar ekkert fannst ákvað hann að hefja leit utan skersins og hélt til London.

Stefán fékk vinnu á bar og þar hitti hann Tom Bryant sem var í veitingahúsa- og ferðamannabransanum. Það var ást við fyrstu sýn og eftir tvo mánuði voru þeir fluttir saman. Stefán hætti að stressa sig á kynhneigð sinni og naut lífsins með ástmanni sínum. Tom og Stefán ákváðu að skreppa í frí til Íslands en á síðustu stundu forfallaðist Tom svo Stefán hélt á aleinn uppá skerið og að sjálfsögðu barði hann uppá hjá Bibbu og Lúðvík.

Langt frá sterkum faðmi Tom var auðvelt að glepjast og missa sjónar á hinni einu og sönnu ást og Stefán rokkaði hægri vinstri þartil hann vaknaði upp einn eitt síðdegið og uppgötvaði að hann hafði átt að fljúga út með morgunfluginu. Stefán flaug út daginn eftir og ákvað að gefa Íslandi frí um óákveðinn tíma. Óákveðni tíminn endaði í tuttugu og fimm árum.

Þremur árum áður en Stefán flutti heim til Íslands greindist Tom með krabbamein í blöðruhálskirtli og eftir tveggja ára sjúkralegu var hann dáinn. Sitting in a kvæet despereisjón is ðe íngliss vei og í níu mánuði starði Stefán á vegg í íbúðinni í London. Þá þurfti hann að fara á hótelráðstefnu í Edinborg og einn daginn þegar hann ranglaði um einmana og örvæntingarfullur í fólksmergð og troðningi í Blakkvell-bókabúðinni rakst hann á Hafstein þar sem hann stóð og grúskaði í sagnfræðibókum. Þremur mánuðum síðar var Stefán fluttur heim til Íslands.

Stefáni fannst hann uppgötva ástina í fyrsta sinn og það var bara tvennt til í stöðunni – Hafsteinn eða dauðinn, last sjott att happíness. Aðra stundina var Stefán að springa úr gleði og hamingju: hann elskar mig, eða lífið er búið; hann elskar mig ekki. Einn daginn fannst honum fáránlegt að hann, fullorðinn maðurinn hagaði sér einsog ástsjúkur unglingur um leið og hann hugsaði: dónt stopp mí náw æm heving sösj a gúdd tæm – æm heving a boll.


Hinir:
Lúðvík
Brynhildur
Auður
Barði